Einært illgresi
Einært illgresi er fljótvaxið og það leggur meiri vöxt í ofanjarðarhluta plöntunnar og blómgun, en í rótarvöxt. Þar sem það leggur ekki mikinn vöxt í rætur þá er líka tiltölulega auðvelt að ná plöntunni upp með rót miðað við fjölært. En það sáir sér hins vegar mun meira en fjölærar plöntur og því getur verið ógrynni af plöntum á litlu svæði. Fræ frá einni plöntu geta skipt hundruðum eða þúsundum á einu sumri og þær eru meira og minna í blóma yfir allt sumarið.
Fræ sumra tegunda getur geymst í fjölda ára í moldinni óskemmt og þegar svo moldin er hreyfð og fræið kemur upp á yfirborðið þá fer það að spíra. Oft er mikið af einæru illgresi þar sem stöðugt er verið hreyfa jarðveginn, t.d. í matjurtatgörðum og blómabeðum og í opnum trjábeðum, þar sem ekki hefur verið hugað að því að hylja jarðveginn með þekjuplöntum, sem hafa það hlutverk að skyggja á og loka jarðveginum og gera þar með skilyrði erfiðari fyrir illgresisfræ til að slá rótum.
Þegar illgresi er hreinsað þarf að fjarlægja rótina. Þegar reitt er og rótin skilin eftir þá vex fljótlega önnur planta upp af rótinni. Það þarf að fylgjast með blómgun og þroska illgresis og sjá um að hreinsa það burtu áður en fræið þroskast og dreifir sér.
Einært illgresi er oft í blóma allt sumarið og fram eftri hausti þegar tíð er góð, því ætti maður einnig að huga að hreinsun einærs illgresis á haustin, ekki síður en yfir sumarið. Það er oft mikil spírun og fræþroski í gangi á haustin, ágúst til nóvember, enda fær illgresið þá oft frið til að vaxa, þroskast og mynda fræforða sem bíður næsta vors til að spíra og vaxa.
Eftirfarandi myndir sýna nokkrar algegnar einærar plöntutegundir sem venjulega eru skilgreindar sem illgresi í garðrækt.
Dúnurt og Aronsvöndur eru oft tvíærar, en þær hafa lítið rótarkerfi og hver planta getur framleitt mikið af fræjum og samsama sig þannig með einæru illgresi.
Með því að klikka á myndirnar stækka þær.