Skrautrunnar
Flestir skautrunnar hafa gott af klippingu einhvertímann. Til að framkvæma hæfilega klippingu þarf að hafa góða þekkingu á mismunandi eiginleika mismunandi tegunda, náttúrulegu vaxtarlagi, blómgunartíma og hvernig tegundin bregst við klippingu. Engin klipping er oft betri en klipping sem eyðileggur náttúrulega eiginleika og vaxtarlag runnanna.
Klipping felst í að grisja gamla runna að innan, fyrst klippa burtu dauðar greinar, þá greinar sem krossast og særa hverjar aðra, og síðan að taka stakar eldri greinar burtu. Þetta opnar runnann, þannig að það skapast rými og birta fyrir nýjar greinar til að vaxa fram.
Góð regla er að leitast við að láta stóra sárafleti sjást sem minnst inní runnanum, og muna að besta klippingin er sú, þar sem lítil verksummerki eru eftir klippinguna.
Þegar eðlileg viðhaldsklipping hefur verið vanrækt í langan tíma getur verið nauðsynlegt að klippa mikið, jafnvel alveg niður til að fá endurnýjun. Það er þó gott að hafa það í huga að eðlilega gamall og úrsérvaxinn trjágróður getur líka haft sjarma, allt er þetta spurning um mannleg viðhorf.