Rósir
Það eru til margskonar flokkunarkerfi fyrir rósir, hér er notast við fjóra flokka, þar sem viðmiðin eru notkunaraðferð, stærð og blómgunarhátt. Flokkarnir eru Villirósir, stórrunnarósir, smárunnarósir og klifurrósir.
Villirósir
Villirósir eru hinar eiginlegu rósir, ættmæður allra annarra rósa, sem dæmi eru Þyrnirós, Meyjarós, Hjónarós, Ígulrós(Garðarós) og margar fl. Klipping þeir ætti að fylgja sömu reglum og gilda um skrautrunna.
Blóm villirósa verða til sumarið áður en þau springa út og ætti því ekki að klippa þær mikið um veturinn, ef vilji er til blómgun eigi sér stað um sumarið.
Hin ýmsu yrki af rósum eru ágæddar á rót af villirósum. Stundum vaxa sprotar frá rótinni, svokallaðir villisprotar, þá ætti að fjarlægja alveg við rótina strax og vart verður við þá. Villisprotarnir hafa annað útlit og er því yfirleitt auðvelt að þekkja þá frá ágrædda rósahlutanum.
Stórrunnarósir
Stórir grófir runnar, töluvert stærri en smárunnarósir. Meðal stórrunnarósa sem eru ræktaðar úti hérna eru Hansarós og Dornrós. Megin reglan er að klippa burtu einhverjar eldri greinar, veiklulegar greinar og krosslægar greinar, til að halda runnanum stöðugt opnum og opnum.
Dornrós kelur oft talsver og ætti aðal áherslan að vera á að klippa kal og dauðar greinar burtu, og halda runnanum opnum fyrir birtu. Hansarós blómstrar bæði á fyrra árs sprotum og árssprotum, þegar hún er klippt mikið að vetrinum þá blómstrar hún seinna um sumarið.
Smárunnarósir
Þeim má skipta eftir blómgunarhætti í stilkrósir og klasarósir. Stilkrósir eru lágar rósir sem blómstra fylltum blómum, sem sitja eitt og eitt á stilk. Klasarósir, þar sitja blómin saman í stærri eða minni klösum. Þær eru venjulega ekki mikið ræktaðar úti á Íslandi, en fyrir þær sem ná að lifa úti, þá gengur klippingin út á að fjarlægja kalnar og dauðar greinar og greinar sem krossast. Þær eru algengari í gróðurskálum og gróðurhúsum. Þær skal klippa árlega, allar veikbyggðar og krosslægar greinar klippist burt, og þær sem eftir eru klipptar þannig að eftir verði 2-3 brum á hverri grein.
Klifurrósir
Klifurrósir hafa langar fremur grannar greinar og þær þurfa stuðning. Þriðjungur til helmingur er klipptur burt af aðalgreinum, og allar hliðargreinar þannig að eftir verði tvö til þrjú brum frá aðalgrein. Klifurrósir eru frekar sjaldgæfar úti í görðum á íslandi, Rosa 'Polstjärnan', sést þó stundum og virðist vera sæmilega harðgerð, einnig bregður stöku sinnum fyrir Rosa 'Flammentanz', og ef til vil fleirum. Annars henta flestar klifurrósir betur í gróðurskálum á Íslandi.