Varnir gegn illgresi
Þekjuplöntur
Það eru til ýmsar tegundir runna, bæði háir og lágir, auk fjölærra blóma sem hentað geta sem þekjuplöntur, en úrvalið mætti þó vel vera meira. Þekjuplöntur loka, skyggja og mynda nokkurskonar þak yfir jarðveginn, sem veldur því að illgresi á erfiðara með að koma sér fyrir. Beð með vel völdum þekjuplöntum, þarf ekki mikið viðhald og getur nánast verið sjálfbært að því leiti, fáeinum árum eftir plöntun.
Það verður samt að gæta að því strax í upphafi ræktunarinnar að hreinsa það illgresi sem kemur í beðin fyrstu 4-5 árin, fjölært illgresi getur auðveldlega kæft þekjuplönturnar fyrstu árin ef það fær að vaxa í friði.
Góðar þekjuplöntur eru með þétt greina og laufskrúð, þola skugga að einhverju magni, breiða úr sér, og leyfa ekki öðrum plöntum svo auðveldlega að vaxa nálægt sér eða gegnum sig.
Þekjuplöntur geta verið að ýmsum toga, hvortheldur sem er breiður af fjölærum blómum, lágvaxnir þekjandi runnar, eða hærri runnar, eins og toppar eða rifstegundir sem hafa þétta greinabyggingu.
Eftirfarandi myndir eru aðeins sýnishorn af mögulegum þekjuplöntum.
- Hélurifs
- Kirtilrifs
- Ísl. einir
- Bergflétta
- Glótoppur
- Skriðmispill
- Brúska
- Hjartasteinbroti
- Gullvölva
- Berghnoðri
- Frúarlykill Primula x pubescens 'Mrs J.H. Wilson'
- Skuggasteinbrjótur/ Postulínssteinbrjótur
Sandur
Sandur er notaður mikið í dag á trjábeð til að minnka spírun illgresis. Þá er sett ca. 5 - 7 cm lag af sandi ofan á beðin. Venjulegast er notast við svokallaðan holtasand eða beðasand.
Sandurinn stoppar ekki allt illgresi frá að vaxa, en fræ á erfiðara með að spíra í sandinum, og þær plöntur sem ná því eru rótlausari og því auðveldara að slíta þær upp.
Sandurinn er ekki vörn mót ýmsum fjölæru illgresi, sem hefur verið til staðar í moldarjarðveginum undir, þannig getur elfting og hófblaðka sem hafa verið í moldinni auðveldlega skotið sér upp í gegnum sandinn og fjölgað sér á skömmum tíma.
Trjákurl
Trjákurl hentar ágætlega gegn illgresi, notkun þess hefur verið að aukast síðustu ár. Hæfilegt magn er sennilega 5 - 10 cm lag.
Með því að smella á myndina stækkar hún.